Bruno var bestur á vellinum

Bruno Fernandes.
Bruno Fernandes. AFP/Paul Ellis

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, var hæstánægður með frammistöðu Bruno Fernandes í 4:1-sigri liðsins á Real Betis í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í gærkvöldi.

Fernandes, sem ber fyrirliðaband Man. United þegar Harry Maguire er ekki í byrjunarliðinu, sætti harðri gagnrýni eftir 0:7-tap liðsins fyrir erkifjendunum í Liverpool um síðustu helgi þar sem hugarfar hans og framkoma þótti ekki fyrirliða enska stórliðsins sæmandi.

„Ég tel Bruno hafa verið besta leikmann vallarins. Hann sýndi persónuleika sinn. Hann spilaði aðeins aftar á vellinum í kvöld og hann var leiðtogi, stjórnaði leiknum djúpt á vellinum.

Hann stýrði ferðinni og takti leiksins, átti margar frábærar sendingar á milli línanna,“ sagði ten Hag á blaðamannafundi eftir leikinn.

Fernandes, sem var fyrirliði Man. United í leiknum í gærkvöldi, skoraði eitt mark og lagði upp annað í honum.

mbl.is