Barcelona með níu og hálfan fingur á titlinum

Franck Kessie fagnar sigurmarkinu í kvöld.
Franck Kessie fagnar sigurmarkinu í kvöld. AFP/Lluis Gene

Það má segja að Barcelona sé með níu og hálfan fingur á titlinum í kjölfar heimasigurs á erkifjendunum í Real Madrid í toppslagnum í spænsku 1. deildinni í fótbolta í kvöld, 2:1.

Barcelona er með tólf stiga forskot á erkifjendurna þegar tólf umferðum er ólokið. Miðað við spilamennsku liðsins í vetur og sögu spænska boltans þarf Real Madrid kraftaverk til að koma í veg fyrir að titillinn fari til Katalóníu.

Ronald Araujo varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark snemma leiks og kom gestunum í Real Madrid yfir. Sergi Roberto jafnaði metin fyrir Barcelona á besta tíma rétt fyrir lok fyrri hálfleiks.

Það var svo Franck Kessie sem kom Barcelona yfir þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

Karim Benzema og félagar héldu að Frakkinn hefði jafnað metin fjórum mínútum síðar en flaggið fór á loft og markið fékk ekki að standa.

Leikmenn Barcelona fagna í leikslok.
Leikmenn Barcelona fagna í leikslok. AFP/Lluis Gene
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert