Ekkert fær Napoli stöðvað

Victor Osimhen fagnar fyrra marki sínu í dag.
Victor Osimhen fagnar fyrra marki sínu í dag. AFP/Marco Bertorello

Fátt virðist ætla að koma í veg fyrir að karlalið Napoli í knattspyrnu vinni sinn fyrsta Ítalíumeistaratitil í 33 ár. Í dag heimsótti liðið Torino í A-deildinni og vann gífurlega öruggan 4:0-sigur.

Nígeríska markavélin Victor Osimhen kom gestunum á bragðið eftir aðeins níu mínútna leik þegar hann skoraði með skalla eftir hornspyrnu Piotr Zielinski.

Á 35. mínútu tvöfaldaði Georgíubúinn stórskemmtilegi, Khvicha Kvaratskhelia, forystuna með marki úr vítaspyrnu.

Osimhen skoraði sitt annað mark og þriðja mark Napoli með hörkuskalla eftir fyrirgjöf Mathías Olivera frá vinstri.

Sóknarmaðurinn hefur nú skorað 21 mark í 23 deildarleikjum á tímabilinu og alls 25 mörk í 29 leikjum í öllum keppnum.

Um miðjan síðari hálfleikinn klykkti Frakkinn Tanguy Ndombele út með fjórða markinu. Þá skoraði hann með skoti af stuttu færi eftir laglegan undirbúning Kvaratskhelia.

Napoli er með 71 stig á toppi ítölsku A-deildinnar, 21 stigi meira en Internazionale frá Mílanó í öðru sæti. Inter á leik til góða gegn Juventus í kvöld.

mbl.is