Hákon og Alfreð á skotskónum

Hákon Arnar Haraldsson í leik FC Köbenhavn og Sevilla í …
Hákon Arnar Haraldsson í leik FC Köbenhavn og Sevilla í september. AFP/Liselotte Sabroe

Lokaumferð dönsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu fór fram í dag. Nú verður deildinni skipt upp þar sem sex efstu liðin spila um sjálfan meistaratitilinn og sæti í Evrópukeppnum að ári og sex neðstu liðin spila um að halda sæti sínu í deild þeirra bestu í Danmörku.

Í baráttunni um meistaratitilinn

Íslendingar voru í eldlínunni að venju. FC Köbenhavn, lið Hákons Arnars Haraldssonar, er í baráttunni um meistaratitilinn aðeins einu stigi á eftir Nordsjælland, sem er á toppi deildarinnar. Bæði liðin unnu sína leiki í dag. Nordsjælland hafði betur á heimavelli gegn Brøndby, 2:1, og Hákon Arnar opnaði markareikning FC Köbenhavn í heimasigri á Viborg, sömuleiðis 2:1.

Hákon skoraði á 13. mínútu með góðu skoti utan teigs með vinstri fætinum upp í fjærhornið, eftir að hafa fengið boltann beint  frá markverði Viborg.

Mohamed Daramy tvöfaldaði forystu Kaupmannahafnarliðsins um miðjan seinni hálfleikinn áður en Viborg klóraði í bakkann nokkrum mínútum síðar. Hákoni var skipt út af undir lok leiks. Ísak Bergmann Jóhannesson var ekki í leikmannahópi FC Köbenhavn en hann hefur lítið fengið að spreyta sig undanfarið.

Safnað mikilvægum stigum

Íslendingaliðið Lyngby, sem Freyr Alexanderson þjálfar og þeir Sævar Atli Magnússon, Alfreð Finnbogason og Kolbeinn Birgir Finnsson leika með, hefur leikið ágætlega undanfarið og safnað mikilvægum stigum í fallbaráttunni. Liðið hefur unnið þrjá leiki og gert eitt jafntefli í síðustu fimm leikjum og hefur rifið sig upp úr botnsæti deildarinnar.

Lyngby tók á móti Horsens í dag. Íslendingarnir voru allir í byrjunarliðinu en Sævar Atli þurfti að yfirgefa völlinn vegna höfuðmeiðsla þegar um stundarfjórðungur var liðinn af leiknum.

Alfreð Finnbogason skoraði á 24. mínútu og kom Lyngby yfir en Simon Makienok jafnaði fyrir Horsens þegar um hálftími lifði leiks og þar við sat. Sigur hefði gert mikið fyrir Lyngby sem berst meðal annars við Horsens á botni deildarinnar en Freyr og félagar þurfa að láta sér lynda eitt stig.

Mikilvægast var að tapa ekki leiknum því það hefði gert stöðuna enn erfiðari fyrir Lyngby sem fer inn í úrslitakeppni neðri hlutans í næst neðsta sætinu, sjö stigum á eftir Horsens. Aron Sigurðarson lék fyrstu 52 mínúturnar í liði Horsens og fór illa að ráði sínu í upplögðu marktækifæri rétt fyrir lok fyrri hálfleiks.

Alfreð Finnbogason fagnar marki með Lyngby í febrúar.
Alfreð Finnbogason fagnar marki með Lyngby í febrúar. Ljósmynd/LyngbyBoldklub

AGF vann heimasigur á OB, 1:0. Mikael Neville Anderson lék fyrstu 77 mínútur leiksins fyrir AGF og Aron Elís Þrándarson kom inn á sem varamaður á 68. mínútu fyrir OB. AGF fer inn í úrslitakeppni efri hlutans í 4. sæti en OB hafnaði í 9. sæti og spilar um að halda sæti sínu í deildinni.

Silkeborg og Midtjylland gerðu jafntefli í fjörugum leik, 3:3. Stefán Teitur Þórðarson byrjaði á bekknum hjá Silkeborg en kom inn á 78. mínútu. Elías Rafn Ólafsson var ekki í leikmannahópi Midtjylland. Silkeborg endar deildarkeppnina í 7. sæti, 13 stigum frá fallsæti en þarf engu að síður að spila um öruggt sæti sitt í deildinni. Midtjylland er einu sæti og einu stigi neðar. 

Jafnteflið þýddi að bæði liðin verða í neðri hlutanum og Bröndby sleppur í efri hlutann en ef annað liðanna hefði unnið, hefði Bröndby lent í neðri hlutanum.

AaB frá Álaborg tapaði áttunda leik sínum í röð í dag þegar liðið tapaði heima fyrir Randers, 1:0. AaB, undir stjórn Eriks Hamréns, fyrrverandi landsliðsþjálfara Íslands, hefur ekki unnið leik síðan í október á síðasta ári þegar liðið lagði Lyngby á útivelli, 2:0, og er nú komið í botnsæti deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert