Ótrúleg óheppni markvarðarins í vítaspyrnum

Leikmenn Udinese fagna marki.
Leikmenn Udinese fagna marki. AFP/Andreas Solaro

Óhætt er að segja að óheppnin elti ítalska knattspyrnumarkvörðinn Marco Silvestri, leikmann Udinese, á röndum.

Í gær varði hann vítaspyrnu frá Zlatan Ibrahimovic í 3:1-sigri Udinese á AC Milan í ítölsku A-deildinni en illu heilli fyrir Silvestri þurfti að endurtaka spyrnuna þar sem liðsfélagi hans hljóp of snemma inn í vítateiginn þegar Zlatan tók hana.

Svíinn þaulreyndi skoraði svo af öryggi úr endurteknu spyrnunni.

Silvestri, sem er 32 ára, hefur aldrei á ferli sínum varið vítaspyrnu í leik í A-deildinni en það athyglisverða er að það nákvæmlega sama og gerðist í gær hefur átt sér stað tvisvar sinnum til viðbótar undanfarna tólf mánuði.

Markvörðurinn hefur nefnilega varið tvær vítaspyrnur til viðbótar í deildarleikjum á undanförnu ári. Í bæði skiptin var samherji hans hins vegar kominn of snemma í vítateiginn, andstæðingarnir fengu því annað tækifæri og skoruðu þá úr spyrnunum.

Silvestri, sem lék með Leeds United um þriggja ára skeið í ensku B-deildinni, hefur leikið 136 leiki í ítölsku A-deildinni á ferlinum og þarf enn um sinn að bíða eftir fyrstu formlegu vítaspyrnuvörslu sinni í deildinni.

mbl.is