Sheffield United í undanúrslit

Tommy Doyle í þann mund að skora glæsilegt sigurmark sitt …
Tommy Doyle í þann mund að skora glæsilegt sigurmark sitt fyrir Sheffield United í dag. AFP/Darren Staples

Sheffield United vann dramatískan sigur á Blackburn Rovers, 3:2, þegar liðin áttust við í átta liða úrslitum ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu karla á Bramall Lane í Sheffield í dag.

Liðin leika bæði í ensku B-deildinni og náðu gestirnir í Blackburn forystunni í tvígang.

Ben Brereton Díaz kom Blackburn yfir með marki úr vítaspyrnu á 21. mínútu.

Sjö mínútum síðar varð Sam Gallagher, sóknarmaður Blackburn, fyrir því óláni að skora sjálfsmark og staðan var þá orðin jöfn, 1:1.

Þannig stóðu leikar í hálfleik en eftir klukkutíma leik kom Sammie Szmodics Blackburn yfir að nýju.

Níu mínútum fyrir leikslok jafnaði Oli McBurnie metin fyrir Sheffield United.

Þegar allt virtist stefna í framlengingu tók Tommy Doyle sig til og skoraði sigurmark Sheffield United í uppbótartíma venjulegs leiktíma með glæsilegu skoti fyrir utan teig.

mbl.is