Hákon framlengdi: Kunna að meta framfarir mínar

Hákon Arnar Haraldsson í leik FC Köbenhavn og Sevilla í …
Hákon Arnar Haraldsson í leik FC Köbenhavn og Sevilla í Meistaradeild Evrópu í september síðastliðnum. AFP/Liselotte Sabroe

Hákon Arnar Haraldsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur skrifað undir nýjan samning við danska stórveldið FC Köbenhavn. Nýi samningurinn gildir til sumarsins 2027.

Hákon Arnar hefur leikið frábærlega fyrir Kaupmannahafnarliðið á tímabilinu og er hæstánægður með að framlengja dvöl sína í danska höfuðstaðnum.

„Ég var þegar með langan samning við FCK en ég er þakklátur fyrir framlenginguna. Mér finnst það frábært af félaginu og með þessum nýja samning er ljóst að það kann að meta þær framfarir sem ég hef sýnt undanfarið ár og þann spiltíma sem ég hef fengið.

Mér líður stórkostlega hjá FCK og í Kaupmannahöfn. Mér finnst ég stöðugt vera að þróa leik minn og ég er með fjölda góðra liðsfélaga og þjálfara sem ég get lært af.

Þess vegna tel ég FCK vera rétta staðinn fyrir mig til þess að þróast. Hér get ég enn þróast á mörgum sviðum, bæði sem leikmaður og manneskja,“ sagði Hákon Arnar í samtali á heimasíðu félagsins.

mbl.is