Musiala meiddur – missir af landsleikjunum og tæpur fyrir stórleikinn

Jamal Musiala og Serge Gnabry.
Jamal Musiala og Serge Gnabry. AFP/Christof Stache

Þýska ungstirnið Jamal Musiala, leikmaður Bayern München, hefur dregið sig úr landsliðshópi Þjóðverja vegna meiðsla aftan í læri.

Musiala kom inn á í hálfleik í tapi gegn Leverkusen, 2:1, í þýsku 1. deildinni um helgina. Þrátt fyrir að hafa klárað leikinn meiddist hann í honum og hefur nú þurft að draga sig úr þýska landsliðshópnum en Þjóðverjar mæta Perú og Belgíu í vináttuleikjum í komandi landsleikjahléi.

Ekki nóg með að missa af landsleikjunum er Musiala tæpur fyrir stórleik tímabilsins í Þýskalandi, þegar Bayern fær topplið Dortmund í heimsókn þann 1. apríl næstkomandi. Dortmund komst upp fyrir Bayern um helgina með stórsigri á Köln, 6:1.

Dortmund er með eins stigs forskot á Bayern sem getur því endurheimt toppsætið eftir landsleikjahléið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert