Stig dregin af Wigan vegna ógreiddra launa

Úr leik Wigan gegn Fulham sumarið 2020.
Úr leik Wigan gegn Fulham sumarið 2020. Ljósmynd/Wigan Athletic

Enska deildakeppnin, EFL, hefur afráðið að draga þrjú stig af Wigan Athletic, botnliði ensku B-deildarinnar í knattspyrnu karla, fyrir að hafa ekki greitt leikmönnum laun í mánuðinum.

EFL hafði áður dæmt Wigan fyrir sams konar brot í júní, júlí og október á síðasta ári en var sá úrskurður skilorðsbundinn.

Þar sem félagið braut gegn skilorði þessu hafa þrjú stig verið dregin af Wigan, sem þýðir að útlitið á botni B-deildarinnar dökknar enn hjá liðinu.

Eftir stigafrádráttinn er Wigan átta stigum frá öruggu sæti þegar liðið á átta deildarleiki eftir á tímabilinu.

Eigandi Wigan, Abdulrahman Al-Jasmi, verður einnig kærður af EFL fyrir fjármálamisferli. Sjálfstæð nefnd mun rannsaka málið.

mbl.is