Var í banni til ársins 2026 en hljóp inn á völlinn og fékk nýtt 40 ára bann

Marko Dmitrovic heldur stuðningsmanninum niðri eftir að hann hafði ráðist …
Marko Dmitrovic heldur stuðningsmanninum niðri eftir að hann hafði ráðist að honum. AFP/Olaf Kraak

Hollenska félagið PSV Eindhoven hefur sett tvítugan stuðningsmann liðsins í 40 ára bann eftir að hann hljóp inn á völlinn og réðst að Marko Dmitrovic, markverði Sevilla, í leik liðanna í Evrópudeildinni í síðasta mánuði.

Stuðningsmaðurinn hljóp inn á völlinn, í átt að Dmitrovic og náði að lemja hann í höfuðið áður en serbneski markvörðurinn sneri hann niður og hélt honum þar til öryggisverðir mættu á svæðið.

Þessi stuðningsmaður átti þó aldrei að vera á vellinum þar sem hollenska knattspyrnusambandið hafði áður bannað hann frá öllum völlum landsins til ársins 2026. Hann komst inn með miða sem vinur hans hafði keypt, en fyrir árásina á Dmitrovic fékk hann einnig þriggja mánaða fangelsisdóm og var bannaður á svæðinu í kringum leikvanginn í tvö ár.

PSV á yfir höfði sér sekt en UEFA, evrópska knattspyrnusambandið, hefur hafið rannsókn á málinu.

Þrátt fyrir tap í leiknum, 2:0, fór Sevilla áfram úr einvíginu, 3:2. Liðið mætir Manchester United í átta liða úrslitum keppninnar.

AFP/Olaf Kraak
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert