Adebayor leggur skóna á hilluna

Emmanuel Adebayor í leik með Tottenham gegn Manchester City árið …
Emmanuel Adebayor í leik með Tottenham gegn Manchester City árið 2014. AFP

Knattspyrnumaðurinn Emmanuel Adebayor hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir rúmlega 20 ára feril.

Adebayor, sem er 39 ára gamall, hóf ferilinn ungur að árum hjá Metz í Frakklandi og fór þaðan til Mónakó.

Eftir dvölina hjá Mónakó gerði hann garðinn frægan hjá Arsenal, þar sem Adebayor lék árin 2006 til 2009, áður en hann var seldur til Manchester City sumarið 2009.

Þaðan var Adebayor lánaður til bæði Real Madríd, þar sem hann vann spænska bikarinn, og Tottenham Hotspur. Stóð hann sig vel hjá báðum liðum og festi Tottenham kaup á honum árið 2012.

Eftir það lék hann með Crystal Palace síðari hluta tímabilsins 2015/2016 og hélt svo til Tyrklands, þar sem hann lék með Istanbul Basaksehir og Kayserispor.

Undir lok ferilsins lék hann í stutta stund fyrir Olimpia í Paragvæ og lauk svo ferlinum hjá Semassi í heimalandi sínu, Tógó.

Adebayor er markahæsti leikmaður í sögu landsliðs Tógó, þar sem hann skoraði 32 mörk í 85 landsleikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert