Franski vængmaðurinn Amine Adli kom mikið við sögu þegar lið hans Bayer Leverkusen vann frækinn endurkomusigur á Þýskalandsmeisturum Bayern München, 2:1, í þýsku 1. deildinni á sunnudag.
Gestirnir frá München komust yfir í fyrri hálfleik með marki Joshua Kimmich.
Í síðari hálfleik hóf Adli hins vegar að láta til sín taka. Snemma í honum vildi Frakkinn fá dæmda vítaspyrnu þegar hann féll við í vítateig gestanna en fékk þess í stað gult spjald fyrir leikaraskap.
Dómara leiksins, Tobias Stieler, var hins vegar bent á að skoða atvikið betur í VAR-skjánum og dæmdi þá vítaspyrnu og dró spjaldið til baka. Úr spyrnunni skoraði Exequiel Palacios á 55. mínútu.
Síðar í leiknum gerðist það nákvæmlega sama. Aftur féll Adli við í vítateignum og vildi fá vítaspyrnu en fékk þess í stað gult spjald fyrir leikaraskap frá Stieler.
Aftur neyddist dómarinn til að fara í VAR-skjáinn, í annað skiptið dæmdi hann vítaspyrnu og í annað skiptið dró hann gula spjald Adli til baka.
Palacios skoraði einnig úr síðari vítaspyrnunni á 73. mínútu og tryggði Leverkusen sigurinn.
Stieler og Adli sáu báðir spaugilegu hliðina við þessi mistök dómarans og brá Adli á leik eins og sjá má: