Mbappé nýr fyrirliði Frakka

Kylian Mbappé er nýr fyrirliði Frakklands.
Kylian Mbappé er nýr fyrirliði Frakklands. AFP/Franck Fife

Didier Deschamps, þjálfari franska karlalandsliðsins í knattspyrnu, hefur skipað sóknarmanninn Kylian Mbappé, leikmann Parsísar SG, sem nýjan fyrirliða liðsins.

Mbappé er einungis 24 ára gamall en býr þrátt fyrir það yfir gífurlegri reynslu þar sem hann hefur raðað inn mörkum fyrir landsliðið, PSG og Monaco á undanförnum rúmum sjö árum.

Hugo Lloris lagði landsliðshanskana á hilluna eftir HM 2022 í Katar en hann hafði verið fyrirliði franska landsliðsins í yfir áratug.

„Kylian tikkar í öll box þegar kemur að ábyrgðinni sem hlutverkinu fylgir. Hann er lykilmaður innan og utan vallar,“ sagði Deschamps í samtali við franska sjónvarpsþáttinn Telefoot.

Antoine Griezmann, leikmaður Atlético Madríd, er nýr varafyrirliði Frakka.

mbl.is