„Líður betur með Koeman en van Gaal“

Georginio Wijnaldum ræðir við blaðamenn fyrir æfingu í gær.
Georginio Wijnaldum ræðir við blaðamenn fyrir æfingu í gær. AFP/Maurice van Steen

Georginio Wijnaldum, miðjumaður hollenska landsliðsins í knattspyrnu, kveðst ánægður með að Ronald Koeman sé tekinn við stjórnartaumunum hjá landsliðinu að nýju eftir að Louis van Gaal lét af störfum.

Wijnaldum og Koeman hafa áður unnið saman, bæði hjá landsliðinu þar sem Koeman var áður landsliðsþjálfari og hjá Feyenoord snemma á ferli Wijnaldum.

Koeman reyndi að kaupa Wijnaldum til Barcelona frá Liverpool.

„Því miður gekk það ekki upp. Samband okkar nær aftur til tíma okkar hjá Feyenoord,“ sagði leikmaðurinn við blaðamenn fyrir æfingu hollenska liðsins í gær.

Undir stjórn van Gaal var Wijnaldum búinn að missa sæti sitt í landsliðshópnum þar sem hann átti ekki fast sæti hjá félagsliði sínu, París SG.

Hann fór að láni til Roma síðasta sumar en fótbrotnaði og missti því af HM 2022.

Wijnaldum er nú heill heilsu og í fyrsta landsliðshóp Koeman eftir að hann tók við að nýju.

„Ég sætti mig við að missa sæti mitt á þeim tíma og við ræddum það. Ég er van Gaal líka þakklátur fyrir það sem hann hefur gert fyrir mig á ferlinum.

Það er ekki eins og mér líki ekki við hann eða finnist hann ekki góður þjálfari En mér líður betur með Koeman en með van Gaal,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert