Özil leggur skóna á hilluna

Özil spilaði með Arsenal á árunum 2013 til 2021.
Özil spilaði með Arsenal á árunum 2013 til 2021. AFP

Þýski knattspyrnumaðurinn Mesut Özil hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir farsælan feril.

Þetta tilkynnti hann á Twitter-aðgangi sínum í dag.

Özil, sem er 34 ára gamall, var síðast á mála hjá Istanbul Basaksehir í fæðingarlandi foreldra sinna, Tyrklandi, en tókst aðeins að leika fáa leiki vegna meiðsla.

Hann gerði garðinn helst frægan hjá Arsenal, Real Madríd og þýska landsliðinu, þar sem hann varð heimsmeistari í Brasilíu árið 2014.

Özil lék með Arsenal í sjö og hálft ár og vann ensku bikarkeppnina fjórum sinnum.

Áður hafði hann leikið með Real Madríd um þriggja ára skeið og varð þar spænskur meistari árið 2012 og vann spænska konungsbikarinn árið áður.

Hann hóf ferilinn hjá Schalke í þýsku 1. deildinni og lék um skeið með Werder Bremen áður en hann hélt til Madrídar.

Özil lék 92 landsleiki fyrir Þýskaland og skoraði í þeim 23 mörk og lagði upp 40 til viðbótar.

Hann var einna helst þekktur fyrir frábæra tæknilega getu og leikskilning, sem skilaði honum gífurlegum fjölda stoðsendinga en á ferlinum skoraði hann 114 mörk fyrir félagslið sín og lagði upp 222 að auki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert