Wolfsburg í vænlegri stöðu

Dominique Janssen fagnar marki sínu í kvöld.
Dominique Janssen fagnar marki sínu í kvöld. AFP/Franck Fife

Dominique Janssen reyndist hetja Wolfsburg þegar liðið heimsótti París SG í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu í París í kvöld.

Leiknum lauk með 1:0-sigri Wolfsburg en Janssen skoraði sigurmark leiksins með marki úr vítaspyrnu á 62. mínútu.

Elisa de Almeida, leikmaður París SG, fékk þá boltann í höndina en hún fékk að líta sitt annað gula spjald í leiknum þegar vítaspyrnan var dæmd og þar með rautt.

Sveindís Jane Jónsdóttir kom inn á sem varamaður hjá Wolfsburg á 79. mínútu en Berglind Björg Þorvaldsdóttir var ekki í leikmannahóp París SG.

Síðari leikur liðanna fer fram í Wolfsburg í Þýskalandi, fimmtudaginn 30. mars.

mbl.is