Bojan leggur skóna á hilluna

Bojan Krkic fagnar marki í leik með Stoke City.
Bojan Krkic fagnar marki í leik með Stoke City. AFP

Spænski knattspyrnumaðurinn Bojan Krkic hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna, 32 ára að aldri.

Síðast lék hann fyrir Vissel Kobe í efstu deild Japans en yfirgaf félagið í janúar eftir tveggja ára dvöl.

Bojan kom kornungur fram á sjónarsviðið hjá uppeldisfélagi sínu, stórliði Barcelona, og voru samanburðir við Lionel Messi ekki lengi að láta á sér kræla.

Ekki tókst sóknarmanninum að standa undir þeim væntingum en lék þó 163 leiki og skoraði 41 mark í öllum keppnum fyrir Börsunga á árunum 2007 til 2011. Lék hann einn landsleik fyrir Spán árið 2008.

Þaðan lá leiðin til Roma á Ítalíu, svo AC Milan á láni frá Rómverjum og þá aftur til Barcelona, þaðan sem Bojan var lánaður til Ajax.

Án þess að spila aftur fyrir uppeldisfélagið hélt hann í ensku úrvalsdeildina, þar sem Bojan var á mála hjá Stoke City í fimm tímabil. Eftir lánsvalir hjá Mainz í Þýskalandi og Alavés á Spáni lék Bojan fyrir kanadíska félagið CF Montréal í bandarísku MLS-deildinni og loks Vissel Kobe.

Bojan tilkynnti um ákvörðun sína að láta staðar numið á Nývangi í Barcelona í dag, þar sem hann kvaðst nú spenntari fyrir því að gera annað en að spila fótbolta.

Þar sagðist einnig lengi hafa glímt við kvíða, sem fór að gera vart við sig er Bojan var að brjótast fram á sjónarsviðið með gífurlegum væntingum í sinn garð hvaðanæva að.

mbl.is