England byrjaði á frábærum sigri á Ítalíu – Kane markahæstur allra

Harry Kane fagnar sögulegu marki sínu í kvöld.
Harry Kane fagnar sögulegu marki sínu í kvöld. AFP/Alberto Pizzoli

England hóf undankeppni EM 2024 með allra besta móti þegar liðið heimsótti Ítalíu í C-riðlinum og hafði betur, 2:1, á Diego Armando Maradona-leikvanginum í Napolí í kvöld.

Declan Rice, miðjumaður West Ham United, kom Englendingum á bragðið eftir aðeins 13 mínútna leik.

Harry Kane, sóknarmaður Tottenham Hotspur, tvöfaldaði svo forystuna með marki úr vítaspyrnu skömmu fyrir leikhlé.

Kane hefur nú skorað 54 mörk fyrir enska landsliðið í 81 landsleik og er þar með orðinn markahæsti leikmaðurinn í sögu karlaliðsins. Wayne Rooney átti fyrra met, 53 mörk í 120 landsleikjum.

Snemma í síðari hálfleik, á 56. mínútu, minnkaði Mateo Retegui, sóknarmaður argentínska liðsins Tigre, muninn fyrir Ítalíu.

Retegui er 23 ára gamall, fæddur og uppalinn í Argentínu en fékk á dögunum ítalskt ríkisfang. Er hann að láni hjá Tigre frá Boca Juniors.

Á 80. mínútu fékk Luke Shaw, varnarmaður Manchester United, sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Englendingar léku því einum færri það sem eftir lifði leiks en náðu að sigla gífurlega sterkum útisigri í höfn.

Höjlund skoraði þrennu

Rasmus Höjlund, sóknarmaður Atalanta á Ítalíu, skoraði sín fyrstu þrjú landsliðsmörk fyrir Danmörku er hann skoraði þrennu í 3:1-sigri á Finnlandi í H-riðlinum.

Hinn tvítugi Höjlund kom heimamönnum yfir um miðjan fyrri hálfleik.

Snemma í síðari hálfleik jafnaði Oliver Antman, miðjumaður Groningen í Hollandi, metin fyrir Finna eftir undirbúning Teemu Pukki, sóknarmanns Norwich City.

Átta mínútum fyrir leikslok kom Höjlund Dönum yfir að nýju og á þriðju mínútu uppbótartíma fullkomnaði hann þrennuna.

Er Höjlund því nú með þrjú mörk í þremur A-landsleikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert