Kane: Skiptir mig öllu máli

Harry Kane þakkar fyrir stuðninginn í leikslok í kvöld.
Harry Kane þakkar fyrir stuðninginn í leikslok í kvöld. AFP/Alberto Pizzoli

Harry Kane varð í kvöld markahæsti leikmaður í sögu enska landsliðsins í knattspyrnu er hann skoraði úr vítaspyrnu í sterkum 2:1-sigri á Ítalíu í undankeppni EM 2024 í Napolí.

„Þetta skiptir mig öllu máli. Ég var svo spenntur fyrir því að klæða mig í ensku treyjuna, koma mér aftur út á völlinn og hefja undankeppnina fyrir EM á næsta ári.

Þetta varð auðvitað að vera vítaspyrna og þegar hún hafnaði í netinu brutust fram miklar tilfinningar. Þetta var töfrandi stund,“ sagði Kane í samtali við Channel 4 eftir leikinn í kvöld.

Hann hefur nú skorað 54 mörk í 81 landsleik og má vænta þess að þau verði mikið fleiri enda er Kane enn aðeins 29 ára.

„Þetta var frábært kvöld, við höfum ekki unnið á Ítalíu í mjög langan tíma. Að skora og vinna er einstakt.

Við vorum svekktir með hvernig HM endaði en í vikunni ræddum við að við ætluðum að spyrna við fótunum. Við erum eitt af bestu liðum Evrópu. Að ná í þennan sigur sýnir að við erum klárir í þetta verkefni,“ bætti hann við.

mbl.is