Clarke stýrir Skotlandi næstu árin

Steve Clarke á tímum sínum hjá West Brom.
Steve Clarke á tímum sínum hjá West Brom. AFP

Fyrrum knattspyrnumaðurinn Steve Clarke hefur gert nýjan samning við skoska knattspyrnusambandið og mun þjálfa karlalið þess til ársins 2026. 

Clarke tók við liðinu árið 2019 og kom Skotlandi á fyrsta stórmót sitt, Evrópumótið 2021, í 23 ár. Þar datt liðið úr leik í riðlakeppninni en gerði markalaust jafntefli við nágranna sína á Englandi. 

Clarke er knattspyrnuáhugamönnum kunnugur en hann lék yfir 300 leiki fyrir Chelsea á árunum 1987-1998 með öðru. Eftir leikmannaferil hans tók hann til þjálfunar og var meðal annars aðstoðarmaður Ruud Gullit hjá Newcastle og José Mourinho hjá Chelsea. 

Clarke stýrði svo West Brom og Reading á árunum 2012-2015 en færði sig svo heim til Skotlands þar sem hann stýrði Kilmarnock í tvö ár áður en hann tók við skoska landsliðinu. 

Skotland freistist þess að komast á Evrópumótið í Þýskalandi á næsta ári og mætir Kýpur í fyrsta leik sínum í riðli A á morgun. Í A-riðli eru fleiri sterkar þjóðir en ásamt Skotum og Kýpverjum eru Noregur, Spánn og Georgía í riðlinum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert