Ronaldo stoltur af heimsmetinu

Cristiano Ronaldo í leiknum í gærkvöldi.
Cristiano Ronaldo í leiknum í gærkvöldi. AFP/Carlos Costa

Portúgalski sóknarmaðurinn Cristiano Ronaldo er stoltur af því að vera orðinn leikjahæsti landsliðskarl sögunnar. Lék hann sinn 197. landsleik í gærkvöldi og skoraði tvívegis í 4:0-sigri á Liechtenstein í J-riðli, riðli Íslands.

Það er heimsmet þar sem enginn karl hefur leikið jafn marga landsleiki fyrir þjóð sína.

Fyrir leikinn í gær, sem fór fram á gamla heimavelli hins 38 ára gamla Ronaldo, José Alvalade-vellinum í Lissabon, leikvangi Sporting Lissabon, var Ronaldo jafn Bader Al-Mutawa frá Kúveit, jafnaldra sínum sem hefur ekki heldur lagt landsliðsskóna á hilluna, með 196 landsleiki.

„Það er stórkostleg tilfinning að spila og skora aftur fyrir landsliðið okkar og það á leikvangi sem stendur mér nærri.

Ég er stoltur af því að vera sá leikmaður sem á flesta landsleiki í sögunni,“ skrifaði Ronaldo á Instagramaðgangi sínum.

Hann er einnig markahæsti landsliðskarl sögunnar með 120 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert