Tveir lykilmenn Ítalíu meiddust

Nicolo Barella í baráttu við Declan Rice í gærkvöldi.
Nicolo Barella í baráttu við Declan Rice í gærkvöldi. AFP/Alberto Pizzoli

Ítalska karlalandsliðið í knattspyrnu mátti þola 1:2-tap fyrir Englandi á heimavelli í undankeppni EM 2024 í gærkvöldi. Leonardo Bonucci gat ekki tekið þátt í leiknum vegna meiðsla og Nicolo Barella meiddist í leiknum.

Barella meiddist eftir klukkutíma leik í gær þegar Harry Maguire traðkaði á fæti hans.

Bonucci var tæpur fyrir leikinn og var að lokum ekki í leikmannahópnum.

Báðir hafa þeir nú yfirgefið landsliðshópinn og haldið aftur til sinna félagsliða; Bonucci til Juventus og Barella til Inter Mílanó.

Mikið er um skakkaföll hjá Ítalíu um þessar mundir þar sem þeir Federico Chiesa, Ciro Immobile, Alessandro Bastoni, Federico Dimarco og Giacomo Raspadori voru meiddir og gátu því ekki gefið kost á sér í landsliðsverkefnið.

mbl.is