Kane og Saka sáu um Úkraínu

Stórglæsilegt skot Bukayo Saka í þann mund að hafna í …
Stórglæsilegt skot Bukayo Saka í þann mund að hafna í samskeytunum í dag. AFP/Justin Tallis

England vann annan sigur sinn í röð í C-riðli undankeppni EM 2024 þegar Úkraína kom í heimsókn á Wembley-leikvanginn í dag. Harry Kane og Bukayo Saka skoruðu mörk Englendinga í 2:0-sigri.

Kane kom Englendingum á bragðið á 37. mínútu með viðstöðulausu skoti á lofti eftir fyrirgjöf Saka frá hægri.

Aðeins þremur mínútum síðar innsiglaði Saka sigurinn með stórglæsilegu skoti fyrir utan vítateig sem söng uppi í samskeytunum.

Eftir sigurinn er England með fullt hús stiga, 6, á toppi C-riðils að tveimur umferðum loknum.

mbl.is