Kasakstan vann ótrúlegan sigur á Danmörku

Askhat Tagybergen fagnar jöfnunarmarki sínu í dag.
Askhat Tagybergen fagnar jöfnunarmarki sínu í dag. AFP/Bo Amstrup

Kasakstan vann magnaðan sigur á Danmörku, 3:2, í H-riðli undankeppni EM í knattspyrnu karla í Astana í Kasakstan í dag.

Danir komust í tveggja marka forystu í fyrri hálfleik með tveimur mörkum frá Rasmus Winther Hojlund. Þannig hélst staðan allt fram á 73. mínútu þegar Baktiyar Zaynutdinov minnkaði muninn fyrir heimamenn.

Lokamínúturnar voru svo ótrúlegar en á 86. mínútu jafnaði Askhat Tagybergen metin fyrir Kasakstan og á 89. mínútu skoraði Abat Aimbetov sigurmarkið. Eftir markið fékk Aimbetov svo tvö gul spjöld og þar með rautt, en það kom ekki að sök.

Ótrúlegur endurkomusigur Kasakstan staðreynd en bæði lið eru með þrjú stig að loknum tveimur umferðum. Norður-Írland og Slóvenía eru einnig með þrjú stig, eftir einn leik en Finnland og San Marínó reka lestina án stiga.

mbl.is