Myndi ekki yfirgefa Forest Green fyrir Real Madrid

Duncan Ferguson hefur tvívegis tekið tímabundið við Everton.
Duncan Ferguson hefur tvívegis tekið tímabundið við Everton. AFP

Duncan Ferguson, fyrrverandi leikmaður Everton og fleiri liða í bresku knattspyrnunni, var í janúar ráðinn stjóri enska C-deildarliðsins Forest Green Rovers.

Ferguson stýrði Everton tvívegis tímabundið eftir að stjóri hafði verið rekinn og segist hafa komið til greina hjá félaginu þegar Frank Lampard var ráðinn.

„Ég kom til greina. Ég fór í viðtal en þetta bara gekk ekki upp, því miður. Það voru mikil vonbrigði að fá ekki að taka við liðinu sem maður elskar, mér fannst ég eiga skilið tækifæri til að klára tímabilið.“

Hann segist þó vera með hugann algjörlega við Forest Green.

„Ég elska Everton, en ég er hjá Forest Green. Eigandinn veit að ég er maður orða minna og ég hef sagt honum að ég sé ekki að fara neitt nema hann segi mér að gera það.

Það myndi engu máli skipta ef Everton myndi hringja á morgun, eða Real Madrid í næstu viku. Ég er ekki á leiðinni burt, það er staðreynd.

Eigandinn setti mikið traust á mig með því að ráða mig og gefa mér langan samning. Ég vil sýna honum þetta traust til baka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert