Greiðslur til félaga vegna HM hækka um 20 milljarða

Argentínumenn urðu heimsmeistarar í Katar.
Argentínumenn urðu heimsmeistarar í Katar. AFP/Juan Mabromata

Samtök evrópskra knattspyrnufélaga, ECA, og Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, skrifuðu í dag undir nýtt samkomulag um greiðslur til félaga vegna þátttöku leikmanna á heimsmeistaramótum karla.

Félög sem áttu leikmenn á HM í Katar fengu samtals 209 milljónir dollara frá FIFA, 29,2 milljarða íslenskra króna, en samkvæmt nýja fyrirkomulaginu fá félögin 355 milljónir dollara, 49,6 milljarða íslenskra króna, frá FIFA fyrir HM 2026, og sömu upphæð fyrir HM 2030.

Hækkunin nemur því rúmum 20 milljörðum íslenskra króna. Það voru Nasser Al-Khelaifi, formaður ECA, og Gianni Infantino, forseti FIFA, sem undirrituðu samkomulagið.

Þátttökuþjóðum í lokakeppninni fjölgar úr 32 í 48 fyrir næsta heimsmeistaramót.

mbl.is