Leikmannahópur Bayern var klofinn

Leikmannahópur Bayern var klofinn þegar kom að knattspyrnustjóranum Julian Nagelsmann.
Leikmannahópur Bayern var klofinn þegar kom að knattspyrnustjóranum Julian Nagelsmann. AFP/Ina Fassbender

Sjö leikmenn knattspyrnuliðs Bayern München í Þýskalandi voru ósáttir með knattspyrnustjórann Julian Nagelsmann sem var rekinn frá félaginu á dögunum.

Það er þýski miðillinn Bild sem greinir frá þessu en brottrekstur Nagelsmann vakti undrun margra enda Bayern komið í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar eftir að hafa slegið stórlið París SG úr leik í 16-liða úrslitum keppninnar.

Þá eru Bæjarar í öðru sæti þýsku 1. deildarinnar, stigi á eftir toppliði Borussia Dortmund, þegar níu umferðum er ólokið.

Bild greinir frá því að markverðirnir Manuel Neuer, Sven Ulreich, Serge Gnabry, Leroy Sané, Jamal Musiala, Joao Cancelo og Sadio Mané hafi allir verið ósáttir með Nagelsmann.

Joshua Kimmich, Leon Goretzka, Matthijs de Ligt, Dayot Upamecano og Benjamin Pavard voru hins vegar ánægðir með störf Nagelsmanns og eru sagðir sjá á eftir honum.

mbl.is