Mancini eftir sigur: Hefðum átt að gera allt betur

Roberto Mancini íhugull á hliðarlínunni á Möltu í gær.
Roberto Mancini íhugull á hliðarlínunni á Möltu í gær. AFP/Alberto Pizzoli

Roberto Mancini, þjálfari ítalska karlalandsliðsins í knattspyrnu, var óhress með frammistöðu sinna manna þrátt fyrir sigur á útivelli gegn Möltu í undankeppni EM 2024 í gær.

Leiknum lauk með 2:0-sigri Ítalíu eftir að liðið hafði tapað á heimavelli fyrir Englandi í fyrstu umferð C-riðils fyrir helgi.

„Þetta var dæmi um leik þar sem við höfum öllu að tapa og þeir eiga það til að verða ljótir. Við gerðum sumt vel og annað ekki jafn vel. Það mikilvægasta var að við unnum leikinn.

Við vorum fljótir að skora og hefðum getað bætt fleiri mörkum við en þessir leikir geta verið skrítnir. Þeir eiga það til að vera undarlegir því það er erfitt að finna taktinn.

Maður fær lítið pláss til þess að spila þannig að þetta snýst um að hafa sem best hugarfar með það fyrir augum að vinna.

Við hefðum átt að gera allt betur, það er alveg ljóst. Þegar maður leiðir 2:0 spilar maður undir minni pressu og við hefðum átt að nýta okkur það betur,“ sagði Mancini í samtali við ítölsku sjónvarpsstöðina Rai Sport eftir leik.

mbl.is