Búinn að sparka nokkrum sinnum í vegginn

Janne Andersson ræðir við Zlatan Ibrahimovic í leik Svíþjóðar gegn …
Janne Andersson ræðir við Zlatan Ibrahimovic í leik Svíþjóðar gegn Belgíu á dögunum. AFP/Jonathan Nackstrand

Janne Andersson, þjálfari sænska karlalandsliðsins í knattspyrnu, kveðst vera svekktur út í sjálfan sig eftir að hafa misst stjórn á skapi sínu eftir leik liðsins í gærkvöldi og rifist við Bojan Djordjic, sparkspeking Viaplay.

„Ég er mjög svekktur með sjálfan mig. Ég er búinn að sparka í vegginn nokkrum sinnum. Ég varð fyrir vonbrigðum með sjálfan mig. Ég ber mikla virðingu fyrir álitsgjöfum og þeim sem hafa álit á því sem við erum að gera því það er hluti af starfinu.

Ég stóð mig ekki nægilega vel í gær og er mjög svekktur yfir því. Ég reyni að bæta mig á hverjum degi því ég vil vaxa og dafna. Ég horfði á þetta aftur og leið hræðilega.

Það að við séum saman komin hérna vegna eftirkasta af útsendingu í myndveri er ekki gott. Það hefur verið álag og þess vegna er ég hér,“ sagði Andersson á blaðamannafundi í dag.

Hef reynt að ná tali af Djordjic

Hann hlaut mikla gagnrýni fyrir að spyrja Djordjic, sem er fæddur í Serbíu en alinn upp í Svíþjóð, á hverra vegum hann væri. Djordjic sárnaði það og þótti sem Andersson væri að ýja að því að hann væri ekki Svíi.

„Ég hef verið að reyna að ná tali af Bojan, ég hef hringt og sent honum skilaboð. Ég vil útskýra hegðun mína fyrir honum, ekki biðjast afsökunar.

Ég skil vel að hann hafi túlkað þetta með þessum hætti en ég þoli ekki kynþáttaníð. Ég biðst innilegrar afsökunar ef hann túlkaði þetta þannig en ég er ekki kynþáttahatari,“ hélt Andersson áfram.

Eigum öll góða og slæma daga

Hann brást ókvæða við þegar Djordjic velti því fyrir sér hvort  Jesper Karlsson, leikmaður AZ Alkmaar, hafi fengið of lítið að spila í landsleikjaglugganum.

„Ég fæ spurningar í þessum dúr og bregst illa við. Það er ótrúlega lélegt af mér. Þess vegna vil ég ræða við Bojan.

Þegar ég spurði á hverra vegum hann væri átti ég við hvort það væri sem leikmaður, þjálfari eða sérfræðingur. Bókstaflega ekkert annað.“

Spurður hvort hann hygðist segja af sér vegna uppákomunnar sagði Andersson:

„Nei, nei. Við eigum öll góða og slæma daga. Ég átti slæman dag þarna, ég leysti ekki nógu vel úr þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert