Hefðir þú skorað ef leikurinn héldi áfram í 48 tíma?

Wout Weghorst hafði ekki heppnina með sér upp við mark …
Wout Weghorst hafði ekki heppnina með sér upp við mark Gíbraltar í gærkvöldi. AFP/John Thys

Fréttamaður hjá ESPN í Hollandi skaut föstum skotum að Wout Weghorst, sóknarmanni hollenska landsliðsins í knattspyrnu og Manchester United, eftir að honum tókst ekki að skora í 3:0-sigri Hollands á smáríkinu Gíbraltar í undankeppni EM 2024 í gærkvöldi.

Weghorst hefur gengið illa fyrir framan markið á tímabilinu og var áframhald á því í leiknum í gær. Sóknarmaðurinn stóri og stæðilegi átti níu marktilraunir í leiknum án þess að takast að skora.

Alls átti Holland 51 marktilraun í leiknum og var Ronald Koeman landsliðsþjálfari óhress með frammistöðu liðsins.

„Wout, ímyndaðu þér ef við hefðum haldið þessum leik áfram í 48 klukkustundir til viðbótar. Hefðir þú skorað mark?“ spurði fréttamaðurinn.

Weghorst lét skotið ekki á sig fá og svaraði: „Góð spurning. Ég hefði þá að minnsta kosti haft meiri tíma. Ég gerði mitt besta en tíminn var liðinn.“

mbl.is