Kovacic var hetja Króatanna

Mateo Kovacic fagnar öðru markanna með félögum sínum í kvöld.
Mateo Kovacic fagnar öðru markanna með félögum sínum í kvöld. AFP/Ozan Kose

Króatar gerðu góða ferð til Tyrklands í kvöld og unnu þar sigur, 2:0, þegar þjóðirnar mættust í undankeppni Evrópumóts karla í fótbolta.

Mateo Kovacic, miðjumaður Chelsea, var í aðalhlutverki hjá Króötum því hann skoraði bæði mörkin í fyrri hálfleiknum, og bæði eftir sendingar frá Mario Pasalic.

Wales vann Lettland, 1:0, í sama riðli með marki frá Kieffer Moore.

Wales og Króatía, sem gerðu jafntefli í fyrstu umferðinni, eru því bæði með fjögur stig en Tyrkir eru með þrjú og Armenía og Lettland eru án stiga.

Sviss og Rúmenía eru efst í I-riðli með sex stig eftir tvo leiki en Sviss vann Ísrael, 3:0, og Rúmenía vann Hvíta-Rússland, 2:1, í kvöld. Þá gerðu Kósóvó og Andorra jafntefli, 1:1, í sama riðli.

mbl.is