Þjálfari Svía missti sig við sparkspeking Viaplay

Janne Andersson, landsliðsþjálfari Svía.
Janne Andersson, landsliðsþjálfari Svía. AFP/Jonathan Nackstrand

Janne Andersson, þjálfara sænska karlalandsliðsins í knattspyrnu, og Bojan Djordjic, sparkspekingi Viaplay, lenti saman að loknum 5:0-sigri liðsins á Aserbaídsjan í undankeppni EM 2024 í gærkvöldi.

Aðdragandann mátti rekja til þess að Djordjic þótti Jesper Karlsson, vængmanni AZ Alkmaar, fá allt of fáar mínútur í yfirstandandi landsleikjaglugga. Skoraði Karlsson fjórða markið í gærkvöldi eftir að hafa komið seint inn á sem varamaður.

„Afsakið, en við getum rætt liðsval í allt helvítis kvöld,“ svaraði pirraður Andersson þá og benti á að þá hefði þurft að skilja annað hvort Alexander Isak hjá Newcastle United eða Viktor Gyökeres hjá Coventry City á varamannabekknum.

Gyökeres byrjaði leikinn, skoraði eitt mark og lagði upp annað. Isak var einnig í byrjunarliðinu.

„Hver á ekki að spila? Ég fær að velja byrjunarliðið, hver ætti ekki að spila? Fyrirgefið en þegar maður er landsliðsþjálfari getur maður gert nákvæmlega það sem maður vill,“ hélt landsliðsþjálfarinn áfram.

Hann lét ekki þar við sitja og ásakaði Djordjic, sem er fæddur í Belgrad í Serbíu en alinn upp í Svíþjóð, um tuð og spurði svo: „Á hverra vegum ert þú?“

Áttirðu við Serbíu?

Djordjic, sem lék á sínum tíma fyrir U21-árs landslið Svíþjóðar og var um tíma á mála hjá Manchester United, svaraði þá:

„Svíþjóð auðvitað, af hverju ætti ég ekki að gera það? Hvers konar spurning er þetta, ætlarðu að segja eitthvað fleira?“

Andersson fór þá eins og köttur í kringum heitan graut og sagði: „Þetta er svo slæmt. Þú stendur hér og segir einhverja vitleysu eftir leik sem við unnum 5:0.“

Verulega ósáttur Djordjic sagði þá: „Þú ert að tala of mikið núna, þú ert allt of árásargjarn. Af hverju? Hverjum öðrum myndi ég halda með? Hvaða landi? Áttirðu við Serbíu eða ekki? Ertu að reyna að halda því fram?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert