Yfirmaður Grétars Rafns í langt bann

Fabio Paratici.
Fabio Paratici. AFP

Fabio Paratici, yfirmaður knattspyrnumála hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Tottenham, hefur verið úrskurðaður í 30 mánaða bann frá fótbolta.

Upphaflega var Paratici, sem er fimmtugur, úrskurðaður í 30 mánaða bann frá öllum afskiptum af ítölskum fótbolta en FIFA blandaði sér í málið og bannið nær nú yfir allan heimsfótboltann.

Paratici starfaði áður hjá Juventus en hann var hluti af miklu fjármálabraski innan félagsins sem varð til þess að ellefu starfsmenn voru úrskurðaðir í bann og þá voru 15 stig dregin af félaginu í A-deildinni þar í landi.

Paratici hefur starfað hjá Tottenham frá því sumarið 2021 en hann er næsti yfirmaður Grétars Rafns Steinarssonar, fyrrverandi landsliðsmanns Íslands í knattspyrnu.

Tottenham er í leit að nýjum stjóra eftir að Antonio Conte var rekinn um síðustu helgi og óvíst er hvort Paratici geti komið að ráðningu nýs stjóra en Ítalinn hefur áfrýjað banni FIFA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert