Chelsea sló út Evrópumeistarana

Sara Däbritz skoraði markið sem réð úrslitum fyrir Lyon.
Sara Däbritz skoraði markið sem réð úrslitum fyrir Lyon. AFP/Ina Fassbender

Chelsea sló í kvöld Evrópumeistarana Lyon frá Frakklandi út í átta liða úrslitum Meistaradeildar kvenna í fótbolta með því að sigra í vítaspyrnukeppni eftir ósigur á heimavelli sínum, Stamford Bridge, í seinni leik liðanna í kvöld, 1:2.

Staða Chelsea var vænleg fyrirfram eftir sigur, 1:0, í fyrri leiknum í Lyon.

Staðan var markalaus fram á 77. mínútu þegar Vanessa Gilles náði að skora fyrir Lyon og koma liðinu yfir, 1:0.

Þar með voru liðin jöfn, 1:1, samanlagt, og leikurinn framlengdur. Þar dró til tíðinda á fimmtu mínútu í seinni hálfleik framlengingarinnar en þá skoraði hin þýska Sara Däbritz annað mark Lyon eftir sendingu frá hinni norsku Ödu Hegerberg, 2:0.

Þegar uppbótartíma í framlengingunni var að ljúka fékk Chelsea vítaspyrnu í kjölfar þess að Lauren James féll í vítateig Lyon. Dómarinn skoðaði atvikið lengi á  skjánum en benti að lokum á punktinn.

Maren Mjelde fór á vítapunktinn eftir margra mínútna þras og skaut beint upp í samskeytin, minnkaði muninn í 2:1, og þar með þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni því liðin voru jöfn, 2:2.

Í vítaspyrnukeppninni varði Ann-Katrin Berger í marki Chelsea frá Wendie Renard, fyrirliða Lyon, í þriðju umferðinni en Christiane Endler í marki Lyon svaraði með því að verja frá Lauren James hjá Chelsea í fjórðu umferð.

Jessica Carter skoraði fyrir Chelsea í fimmtu umferð og Berger markvörður varð síðan hetja Chelsea með því að verja fimmtu spyrnu Lyon frá Delphine Cascarino.

Chelsea mætir Barcelona í undanúrslitunum en Barcelona vann einmitt Chelsea 4:0 í úrslitaleik fyrir  tveimur árum.

Í hinum undanúrslitaleiknum mætast Wolfsburg og Arsenal.

Þetta er í fyrsta skipti í níu ár sem ekkert franskt lið kemst í undanúrslit Meistaradeildar kvenna.

Ann-Katrin Berger grípur boltann í leiknum á Stamford Bridge í …
Ann-Katrin Berger grípur boltann í leiknum á Stamford Bridge í kvöld en hún tryggði Chelsea sæti í undanúrslitunum. AFP/Justin Tallis
mbl.is