Renard tekur við landsliðinu

Hervé Renard tekur við kvennalandsliði Frakklands.
Hervé Renard tekur við kvennalandsliði Frakklands. AFP

Franska knattspyrnusambandið hefur staðfest að Hervé Renard hafi verið ráðinn þjálfari kvennalandsliðs Frakka í staðinn fyrir Corinne Diacre sem var sagt upp störfum á dögunum.

Renard hefur þjálfað karlalandslið Sádi-Arabíu undanfarin ár en undir hans stjórn var það eina liðið sem sigraði Argentínumenn á leið þeirra að heimsmeistaratitlinum í lok síðasta árs.

Renard er 54 ára gamall og hefur áður þjálfað karlalandslið Marokkó, Fílabeinsstrandarinnar, Sambíu og Angóla og m.a. frönsku félagsliðin Lille, Sochaux og Cherbourg.

Franska liðið er á leið í lokakeppni heimsmeistaramótsins í Ástralíu og Nýja-Sjálandi í sumar en því hefur aldrei tekist að vinna til verðlauna á stórmóti þó það hafi verið með lið og leikmenn í fremstu röð í heiminum um árabil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert