Rekinn á fimm mínútna fundi

Thomas Tuchel stýrir æfingu hjá Bayern München.
Thomas Tuchel stýrir æfingu hjá Bayern München. AFP/Michaela Rehle

Knattspyrnustjórinn Thomas Tuchel var rekinn frá enska félaginu Chelsea í september á síðasta ári, eftir slæma byrjun á tímabilinu. Þjóðverjinn tjáði sig um brottreksturinn á blaðamannafundi í dag, en hann var ráðinn stjóri Bayern München á dögunum.

„Það var áfall að vera rekinn. Fundurinn tók aðeins 3-5 mínútur og hann var klukkan 8 að morgni. Við héldum öll að við værum á réttri leið í uppbyggingu.

Nú er ég kominn með nýja áskorun, en ég á enn marga góða vini hjá Chelsea,“ sagði hann á blaðamannafundi hjá þýska félaginu í dag.

„Ég keyrði fram hjá vellinum hérna á hverjum degi þegar ég vann hjá Augsburg í mörg ár. Það er góð tilfinning að vera kominn aftur á heimaslóðir,“ bætti hann við.

mbl.is