Rauða spjaldið dregið til baka og VAR-dómarinn rekinn

Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Real Madríd, og Vinícius Júnior ræða málin …
Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Real Madríd, og Vinícius Júnior ræða málin í leiknum gegn Valencia. AFP/José Jordan

Rauða spjaldið sem Vinícius Júnior, leikmaður Real Madríd, fékk í 0:1-tapi liðsins fyrir Valencia í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu á sunnudag hefur verið dregið til baka.

The Athletic greinir frá.

Vinícius varð fyrir grófu kynþáttaníði af hendi stuðningsmanna Valencia fyrir leik og á meðan honum stóð. Hann fékk svo beint rautt spjald undir blálok leiks fyrir sinn þátt í hópslagsmálum sem brutust út.

Dómarinn Ricardo De Burgos Bengoetxea komst að þeirri niðurstöðu að vísa skyldi Brasilíumanninum af velli út frá myndbrotum sem VAR-dómari leiksins, Ignacio Iglesias Villanueva, sýndi honum á VAR-skjánum.

Nefnd sem samanstendur af einum meðlimi frá spænsku 1. deildinni, einum frá spænska íþróttaráðinu og einum frá spænska knattspyrnusambandinu, skoðaði hins vegar atvikið og komst að þeirri niðurstöðu að rétt væri að draga rauða spjaldið til baka.

Rökin fyrir því eru þau að VAR-dómaranum láðist að sýna allt sem fram fór í aðdraganda þess að Vinícius brást illa við, þar sem Hugo Duro, leikmaður Valencia, tók hann til að mynda hálstaki en var ekki refsað fyrir.

Spænska knattspyrnusambandið ákvað af þessum sökum að leysa VAR-dómarann Iglesias Villanueva frá störfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert