29 milljarða króna knattspyrnuleikur

Mark Robins þjálfari Coventry og Rob Edwards þjálfari Luton.
Mark Robins þjálfari Coventry og Rob Edwards þjálfari Luton. Mynd/Samsett

Í dag fer fram leikur ensku knattspyrnuliðanna Coventry City og Luton Town. Leikurinn er úrslitaleikur um sæti í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili og verður hann spilaður á þjóðarleikvangi Englendinga, Wembley. Leikurinn hefst klukkan 15:45.

Það eru ekki nema fimm ár síðan bæði þessi lið voru saman í fjórðu efstu deild en í dag berjast þau um að komast upp í úrvalsdeildina.

Það lið sem vinnur leikinn í dag mun fara frá Wembley vitandi það að fjárhagur félagsins mun vænkast um 29 milljarða yfir næstu þrjú ár.

Liðsmenn Luton Town eiga möguleika á að spila í ensku …
Liðsmenn Luton Town eiga möguleika á að spila í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili. Ljósmynd/Luton Town

Luton Town - félagið með litla völlinn

Árið 2009 féll Luton Town úr ensku deildarkeppninni þegar liðið féll úr fjórðu efstu deild og við tóku fimm ár í utandeild. Liðið komst upp í fjórðu efstu deild árið 2014 undir stjórn John Still, sem er enn í guðatölu stuðningsmanna félagsins.

Það var svo ekki fyrr en 2018 sem liðið komst upp úr fjórðu efstu deild og strax árið eftir fór liðið upp úr þriðju efstu deild. Það var knattspyrnustjórinn Nathan Jones sem kom liðinu upp um deildir og var hann á endanum ráðinn til Southampton þar sem hann átti ekki góðu gengi að fagna.

Við liðinu tók Rob Edwards og hefur hann stýrt liðinu í 31 leik á tímabilinu, unnið 16 af þeim og aðeins tapað 5 leikjum. Edwards hefur verið duglegur að benda á hvað stuðningsmenn félagsins eiga mikinn þátt í uppgangi þess.

„Árangurinn er svo mörgum að þakka, stjórnarmeðlimum, sjálfboðaliðum og stuðningsmönnum okkar sem hafa verið frábærir.“ sagði Edwards.

Fjárhagur Luton Town hefur ekki verið sterkur og hefur heimavöllur liðsins fengið að finna fyrir því. Litlar endurbætur hafa verið gerðar á Kenilworth Road vellinum en hann tekur aðeins 10.356 áhorfendur í sæti. Eigendur og stuðningsmenn Luton sjá nýjan völl í hyllingum og myndi sigur í dag tryggja fjárhagslega framtíð félagsins til framtíðar.

Gustavo Hamer fagnar marki sínu sem tryggði Coventry farseðilinn í …
Gustavo Hamer fagnar marki sínu sem tryggði Coventry farseðilinn í úrslitaleikinn á Wembley. Ljósmynd/Coventry City

Coventry City - liðið sem var á botni deildarinnar í október

Coventry City var í efstu deild í 34 ár í röð frá árunum 1967 - 2001 og var félagið eitt af stofnfélögum ensku úrvalsdeildarinnar árið 1992. 

Við tóku dimmir tímar hjá félaginu sem féll úr næstefstu deild 2012 og féll einnig úr þriðju efstu deild 2017. Þá tók við taumunum knattspyrnustjórinn Mark Robins og kom hann liðinu upp í þriðju efstu deild á sínu fyrsta ári sem stjóri, 2018.

Árið 2020 vann liðið þriðju efstu deildina og komst upp í næstefstu deild þar sem liðið hefur verið um miðja deild, þar til í ár.

Tímabilið byrjaði ekki vel hjá Coventry og var liðið á botni deildarinnar í október en Mark Robins segir að hann hafi alltaf haft trú á því að sínir menn gætu snúið við blaðinu og það gerðu þeir svo sannarlega.

„Við erum einum leik frá ensku úrvalsdeildinni, að fá að vera hluti af þessu er stórkostlegt. Einum leik frá því að upplifa drauminn okkar og breyta framtíð félags okkar í snatri.“ sagði Robins fyrir leikinn í dag.

mbl.is