Viðar féll með sögufrægu liði

Viðar Ari Jónsson er fallinn með Honvéd.
Viðar Ari Jónsson er fallinn með Honvéd. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Honvéd er fallið úr efstu deild Ungverjalands í fótbolta eftir 1:2-tap á útivelli gegn Puskás Academy í lokaumferð deildarinnar í kvöld.

Viðar Ari Jónsson var allan tímann á bekknum hjá Honvéd, en hann lék 22 leiki á tímabilinu. Hann var þó aðeins sex sinnum í byrjunarliði. Viðar kom til Honvéd frá Sandefjord í Noregi fyrir tveimur árum.

Honvéd, sem er í höfuðborginni Búdapest, hefur 14 sinnum orðið ungverskur meistari, síðast árið 2017. Aðeins Ferencváros, MTK Búdapest og Újpest hafa fagnað ungverska meistaratitlinum oftar. Honvéd varð átta sinnum ungverskur meistari á árunum 1980 til 1993.

mbl.is