Ronaldo og félagar verða ekki meistarar í Sádi-Arabíu

Cristiano Ronaldo nælir sér ekki í gullmedalíu þetta tímabilið.
Cristiano Ronaldo nælir sér ekki í gullmedalíu þetta tímabilið. AFP/Fayez Nureldine

Al-Nassr verður ekki sádi-arabískur meistari í fótbolta þetta tímabilið en það varð ljóst eftir að liðið gerði jafntefli við Al-Ettifaq í gær, 1:1.

Það er orðið ljóst að Al-Ittihad verður meistari en þegar ein umferð er eftir af deildarkeppninni er Al-Ittihad á toppi deildarinnar með fimm stiga forskot á Cristiano Ronaldo og félaga í Al-Nassr.

Ronaldo gekk til liðs við Al-Nassr í janúar á þessu ári eftir að samningi hans við enska stórliðið Manchester United var rift. Það gerði félagið eftir að Ronaldo fór í opinskátt viðtal við fjölmiðlamanninn Piers Morgan þar sem hann talaði ekki vel um félagið.

Ronaldo hefur spilað 19 leiki fyrir Al-Nassr og hefur í þeim skorað fjórtán mörk og gefið tvær stoðsendingar.

Ýmsar sögusagnir hafa verið í gangi um að Ronaldo vilji komast frá Sádi-Arabíu og að hann sakni fótboltans í Evrópu. Hvað mun gerast á eftir að koma í ljós en Ronaldo er orðinn 38 ára gamall.

mbl.is