Goðsögn snýr aftur til Bæjara

Karl Heinz-Rummenigge er kominn aftur til Bayern München.
Karl Heinz-Rummenigge er kominn aftur til Bayern München. AFP

Karl-Heinz Rummenigge, fyrrverandi leikmaður og stjórnarformaður þýska knattspyrnufélagsins Bayern München, var á aðalfundi stjórnar félagsins í dag skipaður í stjórn ráðgjafanefndar þess.

Rummenigge snýr þar með aftur til félagsins þar sem hann var stjórnarformaður félagsins í nærri tvo áratugi, á árunum 2002 til 2021, þegar Oliver Kahn tók við stöðunni af honum.

Kahn og Hasan Salihamidzic, yfirmanni íþróttamála, var báðum vikið frá störfum um liðna helgi, örskömmu eftir að karlaliðið tryggði sér þýska meistaratitilinn.

„Við erum ánægðir með að hafa fengið Karl-Heinz Rummenigge inn sem meðlim í ráðgjafanefnd okkar. Hann er einn merkasti maðurinn í sögu félagsins okkar, allir vita hverju hann hefur áorkað.

Reynsla hans, sérfræðiþekking og alþjóðlegt tengslanet mun hjálpa okkur gífurlega þegar kemur að því að tryggja áframhaldandi árangur FC Bayern í framtíðinni,“ sagði Herbert Hainer, formaður ráðgjafanefndar félagsins, í samtali við heimasíðu þess.

Auk þess að hafa sinnt starfi stjórnarformanns með góðum árangri hjá Bayern var hann einnig sigursæll sem leikmaður liðsins þar sem sóknarmaðurinn vann Meistaradeild Evrópu tvisvar, þýsku deildina tvisvar, þýska bikarinn tvisvar og varð Evrópumeistari með Vestur-Þýskalandi árið 1980.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert