Held að hann vilji frekar úrvalsdeildina

Luis Enrique.
Luis Enrique. AFP/Odd Andersen

Aurelio De Laurentiis, forseti ítalska knattspyrnufélagsins Napoli, segist gjarna vilja ráða spænska þjálfarann Luis Enrique í starf nýs knattspyrnustjóra liðsins eftir að Luciano Spalletti lét af störfum í gær.

Undir stjórn Spallettis vann Napoli ítalska meistaratitilinn í fyrsta sinn í 33 ár. Þrátt fyrir það sagði hann starfi sínu lausu þar sem Spalletti, sem er 64 ára gamall, kvaðst þurfa á eins árs hvíld að halda.

Enrique var síðast landsliðsþjálfari karlaliðs Spánar en lét af störfum þegar liðið var óvænt slegið út af Marokkó í 16-liða úrslitum HM í Katar í desember síðastliðnum.

„Hann er frábær þjálfari. Hann gerði mjög vel hjá Barcelona en ég held að hann vilji frekar ensku úrvalsdeildina,“ sagði De Laurentiis um Enrique í samtali við ítalska miðilinn Rai.

Napoli er í leit að nýjum knattspyrnustjóra.
Napoli er í leit að nýjum knattspyrnustjóra. AFP/Carlo Hermann

„Við verðum að muna að við erum að eiga við deildir sem eru með meira aðdráttarafl en okkar, eins og þá ensku. Þjálfarar fá betri tilboð þar. En ég myndi segja honum að hann fengi betri mat hér.

Við erum að vega og meta nokkurn fjölda af þjálfurum sem myndu notast við 4-3-3 leikkerfið með okkar stórkostlegu leikmönnum, sem við viljum halda,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert