Hollenskur landsliðsmaður grunaður um eiturlyfjasmygl

Quincy Promes, leikmaður Spartak Moskvu.
Quincy Promes, leikmaður Spartak Moskvu. AFP

Hollenski knattspyrnumaðurinn Quincy Promes hefur verið ákærður af hollenska saksóknaraembættinu, grunaður um aðild að stórfelldu eiturlyfjasmygli.

Promes, sem er leikmaður Spartak Moskvu í Rússlandi, er talinn hafa átt hlut að máli í 1.362 kg smygli á kókaíni til Hollands eða Belgíu, að því er hollenska dagblaðið Het Parool hefur eftir embættinu.

Málið verður tekið fyrir við hollenskan dómstól næstkomandi mánudag.

Promes, sem er 31 árs og á að baki 50 A-landsleiki fyrir Holland, stendur einnig frammi fyrir kæru er lýtur að tilraun til manndráps og líkamsárás.

Sú kæra var lögð fram árið 2021 og verður það mál sömuleiðis tekið fyrir rétti á mánudaginn kemur.

Promes hefur neitað sök í síðarnefnda málinu, þar sem honum er gefið að sök að hafa stungið ættingja sinn í hnéð í fjölskyldugleðskap í júlí árið 2020, en hefur ekki tjáð sig um ákæruna er lýtur að eiturlyfjasmyglinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert