Krókaleiðir Barcelona til að fá Messi

Lionel Messi er á förum frá PSG.
Lionel Messi er á förum frá PSG. AFP/Jean-Christophe Verhaegen

Spænska knattspyrnufélagið Barcelona vill gjarna semja við argentínska snillinginn Lionel Messi á nýjan leik.

Að því er þó ekki hlaupið þar sem Barcelona er skuldum vafið og þarf að lækka launareikninginn sinn umtalsvert til þess að eiga möguleika á að semja við Messi, svo félagið fari ekki gegn fjármálareglum spænsku 1. deildarinnar.

L’Équipe greinir frá því að Börsungar íhugi nú að fara krókaleið, fari svo að Barcelona reynist ekki unnt að semja beint við Argentínumanninn.

Sú krókaleið fæli í sér að bandaríska knattspyrnufélagið Inter Miami semdi við Messi og lánaði hann svo til Barcelona í sex til átján mánuði.

Með þeirri leið gæti Barcelona samið við Inter Miami um að greiða hluta launa Messi og spænska félagið um leið greitt því bandaríska fyrir lánssamninginn.

Messi íhugar nú risatilboð frá Al-Hilal í Sádi-Arabíu en samkvæmt spænskum og frönskum miðlum hefur hann meiri áhuga á því að snúa aftur til Barcelona.

Hann hefur undanfarin tvö tímabil leikið með París Saint-Germain í frönsku 1. deildinni en rær á önnur mið þegar samningur hans rennur út í sumar. Áður hafði Messi leikið allan feril sinn með Barcelona.

mbl.is