Sjöundi sigur Spánverjanna

Leikmenn Sevilla fagna sigrinum eftir vítaspyrnukeppnina í kvöld.
Leikmenn Sevilla fagna sigrinum eftir vítaspyrnukeppnina í kvöld. AFP/Joe Klamara

Spænska félagið Sevilla hélt áfram magnaðri sigurgöngu sinni í Evrópudeild karla í fótbolta í kvöld með því að sigra Roma frá Ítalíu úrslitaleik keppninnar á Puskás-leikvanginum í Búdapest.

Staðan var 1:1  eftir venjulegan leiktíma og einnig eftir framlengingu en í vítaspyrnukeppni skoruðu Spánverjarnir úr öllum fjórum spyrnum sínum á meðan lærisveinar José Mourinhos skoruðu aðeins úr þeirri fyrstu. Yassine Bounou, marokkóski landsliðsmarkvörðurinn, varði tvær af spyrnum ítalska liðsins.

Paulo Dybala kom Roma yfir með marki á 35. mínútu en Sevilla jafnaði með sjálfsmarki á 55. mínútu.

Sevilla hefur þar með unnið Evrópudeildina sjö sinnum og hefur sigrað í hverjum einasta úrslitaleik sínum í keppninni. Óhætt er að segja að liðið sé með yfirburði í þessari keppni því ekkert annað félag hefur unnið hana oftar en þrisvar. Það hafa Inter Mílanó, Liverpool, Juventus og Atlético Madrid gert, frá árinu 1971.

Allir sjö sigrar Sevilla hafa komið á síðustu sautján árum.

Yassine Bounou markvörður Sevilla ver í vítaspyrnukeppninni.
Yassine Bounou markvörður Sevilla ver í vítaspyrnukeppninni. AFP/Ferenc Isza
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert