Þjálfari Arsenal lofar Sveindísi í hástert

Sveindís Jane Jónsdóttir í baráttunni gegn Arsenal.
Sveindís Jane Jónsdóttir í baráttunni gegn Arsenal. AFP/Ronny Hartmann

Jonas Eidevall, þjálfari kvennaliðs Arsenal í fótbolta, skrifar pistil um úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu sem fram fer á laugardaginn á enska miðilinn Guardian í dag.

Wolfsburg og Barcelona mætast í úrslitaleiknum og er íslenska landsliðskonan Sveindís Jane Jónsdóttir áberandi í pistlinum.

„Það verður mjög áhugavert að sjá hvernig Lucy Bronze, hægri bakvörður Barcelona, verður á móti Sveindísi. Barcelona er ekki með sama hraða og Sveindís og Ewa Pajor, en heldur boltanum betur,“ skrifaði Eidevall.

„Sveindís lék á hægri kantinum þegar Barcelona vann Wolfsburg í undanúrslitum á síðasta ári. Þá var hún stanslaust að vinna til baka. Sveindís er ýmislegt, en hún er ekki frábær varnarmaður. Hún er hins vegar einn besti skyndisóknarmaður heims. Nú er hún komin á hinn kantinn. 

Þegar Wolfsburg og Bayern mættust í úrslitum í bikarnum í síðasta mánuði sóttu bakverðir Bayern lítið og þá þurfti Sveindís ekki að vinna til baka. Þegar hún fær að vera framarlega er hún hættuleg. Það verður mjög áhugavert að sjá hvort Barcelona nái að sækja með bakvörðunum og þrýsta Sveindísi aftar, eða hvort hún nái að nýta styrkinn sinn í skyndisóknum,“ skrifaði sá sænski einnig.

mbl.is