Íslendingurinn yfirgefur Inter

Anna Björk Kristjánsdóttir, lengst til hægri, fagnar marki ásamt liðsfélögum …
Anna Björk Kristjánsdóttir, lengst til hægri, fagnar marki ásamt liðsfélögum sínum í Inter á síðasta ári. Ljósmynd/Inter

Knattspyrnukonan Anna Björk Kristjánsdóttir hefur yfirgefið herbúðir ítalska stórliðsins Internazionale frá Mílanó eftir tveggja ára dvöl.

Anna Björk greindi sjálf frá tíðindunum á Instagram-aðgangi sínum.

„Allir góðir hlutir taka enda. Takk kærlega fyrir þessi tvö fallegu ár! Það hafa verið mikil forréttindi að klæðast þessum litum og þakka ykkur aðdáendum fyrir stuðninginn.

Liðsfélagar mínir og starfsfólk, takk fyrir allt. Blásvört að eilífu,“ skrifaði hún.

Anna Björk, sem er 33 ára gamall miðvörður, var inn og út úr liðinu hjá Inter á árunum tveimur og lék alls 23 leiki í ítölsku A-deildinni, þar af 15 á nýafstöðnu tímabili.

Hún er þaulreyndur leikmaður sem hefur sem atvinnumaður leikið með Örebro og Bunkeflo í sænsku úrvalsdeildinni, PSV Eindhoven í hollensku úrvalsdeildinni og Le Havre í frönsku 1. deildinni. Anna er með leikjahærri knattspyrnukonum Íslands en hún hefur alls leikið 258 deildaleiki á ferlinum.

Anna Björk hóf meistaraflokksferilinn ung að árum hjá uppeldisfélagi sínu KR og hefur einnig leikið með Stjörnunni og Selfossi hér á landi. Þá á hún 44 A-landsleiki að baki og var í leikmannahópi Íslands á EM 2017 í Hollandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert