Dæmdur nauðgari flúði Ísland og býðst til að spila frítt í heimalandinu

Andrés Manga Escobar í leik með Leikni síðasta sumar.
Andrés Manga Escobar í leik með Leikni síðasta sumar. Ljósmynd/Haukur Gunnarsson

Kólumbíski knattspyrnumaðurinn Andrés Ramiro Manga Escobar, fyrrum leikmaður Leiknis úr Reykjavík, flúði Ísland í desember síðastliðnum. Þá var hann í farbanni eftir að hafa hlotið fangelsisdóm fyrir nauðgun hér á Íslandi. Nú hefur hann boðist til að spila launalaust fyrir sitt gamla félag, Deportivo Cali.

Andrés lék átján deildarleiki og skoraði tvö mörk með Leikni í úrvalsdeild karla í fótbolta sumarið 2021.

Á seinasta ári dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur Andrés í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir nauðgun. Hann áfrýjaði dómnum til Landsréttar og var úrskurðaður í farbann þar til dómur Landsréttar lægi fyrir.

Þann 22. september sl. staðfesti Landsréttur dóm Héraðsdóms Reykjavíkur og féllst jafnframt á þá kröfu ákæruvaldsins að Andrés skyldi vera áfram í farbanni þar til afplánun hæfist. Andrés náði að flýja land í desember á seinasta ári.

Hefur boðist til að spila frítt fyrir sitt gamla félag

Hann mætti í útvarpsviðtal hjá Deprte sin Tabujos þann 18. janúar þar sem hann sagðist hafa komið heim til Cali í desember og að málaferlin gegn honum á Íslandi væru enn opin. Þá lét hann hafa eftir sér að náðst hefði samkomulag við íslensk yfirvöld af „mannúðarástæðum“, fyrir tilstilli Gustavo Quijano, starfsmanns Knattspyrnusambands Kólumbíu.

Andrés var spurður af því í þættinum hver framtíðaráform hans væru og svaraði hann að það eina sem hann vildi gera væri að spila fótbolta.

Í nýlegu viðtali segir Andrés að hann hafi stundað æfingar einn síns liðs undanfarna mánuði en að hann vilji komast í lið Deportivo Cali. Kveðst hann hafa gert forseta liðsins tilboð um að spila frítt með liðinu á undirbúningstímabilinu og bíði hann svara.

Þá segir hann á öðrum stað í viðtalinu: „Ég vil ekki hljóma hrokafullur, en ég veit að ég er frábær knattspyrnumaður og ég get orðið liðinu að gagni. Ég vona að þetta muni ganga eftir, mig langar virkilega að snúa aftur á völlinn.“

mbl.is