Grátlegt hjá Sveindísi í úrslitum

Mariona Caldentey hughreystir Sveindísi í leikslok.
Mariona Caldentey hughreystir Sveindísi í leikslok. AFP/John Thys

Barcelona er Evrópumeistari kvenna í fótbolta í annað sinn á þremur árum og í annað sinn í sögunni eftir 3:2-sigur á Wolfsburg í úrslitum í Eindhoven í Hollandi í dag.

Sveindís Jane Jónsdóttir er leikmaður Wolfsburg og hún þurfti að sætta sig við silfurverðlaun, en hún lék allan leikinn.

Wolfsburg byrjaði með látum, því Ewa Pajor skoraði fyrsta markið strax á 3. mínútu með glæsilegu langskoti eftir að hún vann boltann sjálf af Lucy Bronze, enska bakverðinum í liði Barcelona.

Spænska liðið svaraði með því að skapa sér nokkur góð færi. Irene Paredes fékk það besta á 13. mínútu en hún skallaði framhjá úr dauðafæri, ein og óvölduð í markteignum. Barcelona hélt áfram að sækja, en tókst ekki að finna leið framhjá Merle Frohms í marki Wolfsburg.

Sveindís í baráttunni við Irene Paredes í dag.
Sveindís í baráttunni við Irene Paredes í dag. AFP/John Thys

Þýska liðið refsaði svo á 37. mínútu, þegar Alexandra Popp skallaði í netið af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Pajor frá vinstri. Barcelona hafði verið sterkari aðilinn á vellinum, en Wolfsburg skorað mörkin tvö.

Salma Paralluelo slapp ein gegn Frohms í uppbótartíma fyrri hálfleiks, en markvörðurinn varði glæsilega og sá til þess að Wolfsburg fór með 2:0-forskot í hálfleikinn.

Barcelona jafnaði hins vegar á augabragði í seinni hálfleik því Patri Guijarro minnkaði muninn á 48. mínútu með góðri afgreiðslu úr teignum eftir sendingu frá  Caroline Hansen. Hún var svo aftur á ferðinni tveimur mínútum síðar með skalla af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Aitana Bonmati. Staðan því skyndilega orðin 2:2.

Barcelona var ekki hætt, því Spánarmeistararnir komust í 3:2 á 70. mínútu. Fridolina Rolfö nýtti sér þá mistök í vörn Wolfsburg og skoraði af stuttu færi. Wolfsburg náði ekki að skapa sér mjög gott færi eftir það og afar svekkjandi niðurstaða fyrir Sveindísi varð raunin.

Svendís Jane Jónsdóttir í baráttunni í úrslitaleiknum í dag.
Svendís Jane Jónsdóttir í baráttunni í úrslitaleiknum í dag. AFP/Kenzo Tribouillard
Wolfsburg 2:3 Barcelona opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti sjö mínútur í uppbótartíma. Þetta er sannarlega ekki búið.
mbl.is

Bloggað um fréttina