Real og Barcelona misstigu sig

Karim Benzema kveður stuðningsmenn Real Madrid í kvöld.
Karim Benzema kveður stuðningsmenn Real Madrid í kvöld. AFP/Pierre-Philippe Marcou

Spánarmeistarar Barcelona og erkifjendurnir í Real Madrid misstigu sig bæði í lokaumferð spænsku 1. deildarinnar í fótbolta sem leikinn var í kvöld.

Nokkuð er síðan Barcelona tryggði sér Spánarmeistaratitilinn, en liðið mátti þola 1:2-tap á útivelli gegn Celta Vigo.

Gabri Veiga gerði bæði mörk Celta á 42. og 65. mínútu, áður en Ansi Fati minnkaði muninn á 79. mínútu.

Barcelona mátti þola tap í lokaumferðinni.
Barcelona mátti þola tap í lokaumferðinni. AFP/Miguel Riopa

Real gerði 1:1-jafntefli á heimavelli gegn Athletic Bilbao. Oihan Sancet kom Athletic yfir á 49. mínútu, en Karim Benzema jafnaði á 72. mínútu úr víti í sínum síðasta leik með Real.  

Barcelona endaði með 88 stig, tíu stigum meira en Real í öðru sæti. Atlético Madrid og Real Sociedad fara einnig í Meistaradeildina. Þangað fer Sevilla sömuleiðis, þrátt fyrir að enda í 12. sæti, en liðið vann Evrópudeildina.

Villarreal og Real Betis fara í Evrópudeildina og Osasuna í Sambandsdeildina. Elche, Espanyol og Real Valladolid falla niður í B-deildina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert